Innlent

Vill að ríkisstjórnin segi af sér

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hvatti ríkisstjórnina til þess að segja af sér á Alþingi í dag um leið og hann gagnrýndi hana fyrir aðgerðaleysi í efnahagsmálum.

 

Guðni vakti athygli á því í fyrirspurnartíma að verðbólga væri nú nærri 12 prósent og hefði ekki verið meiri í um tuttugu ár. Engin ríkisstjórn hefði verið jafnmáttvana frammi fyrir efnahagsvanda og núverandi ríkisstjórn. Þá sagði hann verkalýðshreyfinguna hafa gagnrýnt aðgerðaleysið og atvinnulífið kallaði á evru.

Allt sem framsóknarmenn hefðu sagt hefði komið fram en forsætisráðherra og ríkisstjórnin bæri meiri ábyrgð á ástandinu en aðrir. Hún hefði horft til Seðlabankans sem væri með hæstu stýrivexti í heimi. Efnahagsvandinn kæmi að utan og vandræðin yrðu ekki leyst uppi í Seðlabanka. Ríkisstjórnin þyrfti að takast á við vandann en hann hefði gengið mánuðum saman. Ríkisstjórnin ætti því að segja af sér.

 

Verðbólgukúfur sem hjaðnar hratt

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði aðeins vanta í ræðu Guðna að hann segði að hann byðist sjálfur til þess að taka við. Um verðbólguna sagði forsætisráðherra að verðbólgutölurnar í dag hefðu verið verrri en menn hefðu búist við. Það hefði legið í hlutarins eðli að Íslendingar myndu ganga í gegnum verðbólgukúf en miðað við verðbólguna nú væri líklegt að hann gengi hraðar yfir en búist hefði verið við og verðbólga minnka hratt á næstunni. Það væru góðu fréttirnar í stöðunni.

Ráðherra benti enn fremur á að heimsmarkaðsverð á ýmsum nauðsynjum eins og korni og olíu hefði hækkað mikið og þá hefði gengi króinunnar veikst mikið og verðbreytingar skilað sér hratt úr í samfélagið. Einhverjir kynnu nýta sér lækkun krónunnar til að hækka verð og við því þurfi að bregðast. Það hefði ríkisstjórnin gert með því að samþykkja tillögur viðskiptaráðherra um aðgerðir í verðlagseftirliti og fleira.

Forseti ASÍ saknar Framsóknar

Guðni sagðist hafa rætt við Grétar Þorsteinsson, forseta ASÍ, sem hefði sagst sakna þess tíma þegar Framsóknarflokkurinn hefði verið við völd og tekið á svipuðum vanda á árunum 2001 og 2002. Ráðherra léti eins og það dygði að stinga fjórum milljónum í vasa viðskiptaráðherra og vísaði Guðni þar til samninga ráðherra við ASÍ og Neytendastofu um verðlagseftirlit. ,, Þvílík háðung," sagði formaður Framsóknarflokksins.

Sagði hann ríkisstjórnina hafa fengið fjölmargar viðvaranir og vísaði hann til ríkisstjórnarinnar árið 1988 sem sprungið hefði í beinni útsendingu vegna mikils ósættis um alla hluti. Spurði hann forsætisráðherra hvort það væri svona erfitt að eiga við Samfylkinguna í efnahagsmálum.

Geir H. Haarde benti þá á að verðbólguvandinn væri innfluttur og aðstæður væru með þeim hætti að menn hefðu ekki séð þær fyrir þegar kjarasamningar voru gerðir. Forsendur væru breyttar og það væri verkefni allra að takast á við það. Sagði hann þegar búið að ákveða að fundur yrði haldinn á samráðsvettvangi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og hann færi líklega fram strax eftir helgi. Þá myndu menn taka til óspilltra málanna eins og kostur væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×