Erlent

ESB vill að fjárfestar fái aðgang að orkulindum Rússa

Leiðtogar Evrópusambandsins leggja hart að Rússum að veita fjárfestum aðgang að orkulindum þeirra. Rússar hafa undanfarin ár fært eignarhald á olíulindum sínum aftur til ríkisins. Forseti Rússlands og leiðtogar ESB ræða um orkulindir og öryggismál í Síberíu í dag.

Forseti Rússlands, Dimitry Medvedev, tók við embætti af Vladimir Putin í maí. Það kemur í ljós í viðræðunum við leiðtoga Evrópusambandsins í Síberíu í dag hvort hann víkur frá þeirri stefnu sem Putin markaði varðandi olíulindir landsins.

Pútin var andvígur því að olíu og gaslindir Rússlands væru í einkaeign og þjóðnýtti stór orkufyrirtæki í valdatíð sinni. Leiðtogar Evrópusambandsins eru nú mættir til Síberíu til að ræða um það við forsetann að opna fyrir þann möguleika að erlendir fjárfestar geti eignast hlut í orkulindum.

Á þessum síðustu og verslu tímum, þegar verð á olíu hefur rokið upp úr öllu valdi, eru olíulindirnar mikilvægar fyrir Rússland og ekki síður fyrir ríki Evrópusambandsins að fá aðgang að þeim.

Leiðtogar ESB ræða líka við forsetann um öryggismál og mannréttindi. Medvedev hefur lofað að í valdatíð sinni muni hann tryggja frelsi fjölmiðla en fyrirrennari hans í embætti var gagnrýndur harkalega fyrir að aðför að prentfrelsi í Rússlandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×