Skoðun

Eru háskólaprófessorar skrifandi á íslenzku?

Sigurður Gizurarson skrifar

Í Fréttablaðinu sunnudaginn 22. júní sl. birtist á bls. 2 grein sem bar fyrir­sögnina „Háskólanemar varla skrifandi á íslensku". Undirfyrirsögn greinarinnar var: „Lagaprófessor segir vankunnáttu háskólanema aftra kennurum í starfi sínu.

Rektor Háskóla Íslands tekur undir það og segir nauðsynlegt að gerðar verði strangari kröfur um íslenzkukunnáttu á fyrri stigum skólakerfisins." Haft er eftir Sigurði Líndal lagaprófessor, að vankunnátta háskólanemenda í íslensku valdi kennurum auknu álagi. Hann bætir við: „Mér finnst áberandi hversu margir nemar í háskóla virðast ekki geta skrifað skilmerkilegan texta eða komið frá sér hugsun svo að heil brú sé í. Auk þess eru allt of margir ágallar á frágangi og stafsetningu. [...] Ég held því nefnilega fram, að það að skrifa skýran og skilmerkilegan texta sé gríðarlegt hagræðingar­atriði."

Ummæli Sigurðar Líndals eru einkar athyglisverð, af því að sjálfur er hann ekki skrifandi á íslenzku. Lítum á eftirfarandi setningu í Um lög og lögfræði (Rvík 2003) á bls. 329: „Þegar hins vegar kemur að því að ákvarða hvað hafa beri til viðmiðunar þegar skera á úr hvort regla sé lagaregla skilja leiðir." (Leturbreytingar mínar) Rétt væri að segja „hvað hafa ber til viðmiðunar þegar skera skal úr hvort regla er lagaregla". Slíkur framsetningarmáti er að vísu orðinn æði algengur nú á dögum, m.a. sífellt notaður í íslenzkum fjölmiðlum, en er órökréttur og til marks um málfarslega hnignun.

Samkvæmt upprunalegum íslenzkum málfræðireglum, sem rökréttar verða að teljast, vísa tengingarnar „hvað" og „hvort" ekki til viðtengingarháttar, þ.e. ekki til einhvers sem er óraunverulegt og óvíst, heldur til framsöguháttar, þ.e. til þess sem er raunverulegt og víst. Þegar um staðhæfingu er að ræða sem er ætlað að vera vísindaleg, er viðtengingarháttur bæði málfræðilega og rökfræðilega rangur og afar ankannalegur.

Sigurður segir einnig í ofangreindri setningu „þegar skera á úr hvort regla sé lagaregla skilja leiðir", sem er rangt mál. Rétt mál er hins vegar „þegar skera á úr hvort regla er lagaregla skilur leiðir." Sagnorðið er ópersónulegt. Ekki þarf að taka fram, að fjöldi málvillna í heilli bók upp á meira en 400 blaðsíður er umtalsverður, úr því að finna má þrjár villur í einni setningu.

Ekki aðeins hefur Sigurður Líndal lítil tök á íslenzku máli, heldur er texti hans afar ruglingslegur. Þannig er t.d. ofangreind setning óskiljanleg, þótt reynt sé að finna henni vitræna merkingu með því að skoða hana í samhengi við næstu setningar á undan.

En hvernig hefur þá slík ruglingsleg setning ratað inn í texta Sigurðar Líndals? Skýringin sýnist vera eftir­farandi: Í yfirliti brezka réttarheimspekingsins H.L.A. Harts í The Concept of Law á bls. 302 telur hann upp nokkrar staðhæfingar, sem gjarnan eru kenndar við lagasethyggju (legal positivism).

Þar er m.a. undir tl. 5 að finna svohljóðandi staðhæfingu, sem Hart þó tekur alls ekki sjálfur undir: „moral judgments cannot be established, as statements of fact can, by rational argument, evidence or proof": „non-cognitivism in ethics".

Á íslenzku hefur staðhæfing þessi svofellda merkingu: „Siðferðilega dóma er ekki unnt að fella með sama hætti og þegar staðreyndum er lýst með því að beita rökstuðningi, leggja fram óræk gögn eða beita sönnunarfærslu." Forsenda staðhæfingarinnar er, að unnt sé að fella siðferðilega dóma.

Á bls. 69 í Um lög og lögfræði þýðir Sigurður Líndal staðhæfingu þessa ranglega með svofelldum hætti: „Að siðadómar verði ekki felldir né þeim haldið fram sem staðreyndum með vitrænum rökum, vitnisburðum eða sönnunum." Hann misskilur texta Harts á þann veg, að ekki sé unnt að fella siðferðisdóma. Auk þess klýfur hann setninguna í tvennt, sem er rökfræðilega óheimilt. Þannig verða til tvær vitlausar setningar, sbr. á bls. 329: „Siðferðisdómar verða ekki felldir um staðreyndir. Þegar hins vegar kemur að því að ákvarða hvað hafa beri til viðmiðunar þegar skera á úr hvort regla sé lagaregla skilja leiðir."

Fyrri staðhæfingin er fáránlegt ranghermi, sem er til marks um siðfræðilega vanþekkingu Sigurð­ar, en síðari staðhæfingin er óskiljanlegur ruglingur. Siðfræði fjallar um siðferðilegar spurningar. Hún er verkleg, því að markmið hennar er að gera menn færa um að fella siðferðilega dóm í því skyni að vera færir um að hafast að - þ.e. haga lífi sínu réttilega, skynsamlega og í víðtækastri merkingu orðsins „vel". Siðferðileg dómgreind og siðferðilegir dómar gegna því grundvallarhlutverki í lífi okkar.

Þvert gegn staðhæfingu Sigurðar heldur H.L.A. Hart því fram, að siðferðisdómar séu annar grundvallarþáttur lagahugtaksins. Svokallaður innri sjónarhóll (internal point of view) er meginatriði í réttarkenningu hans: embættismenn, lögfræðingar og óbreyttir borgarar nota lögin sem staðal til leiðsagnar um hegðun sína og annarra og ástæðu til að fjandskapast við þá sem virða þann staðal að vettugi, sbr. The Concept of Law á bls. 90. Almennt nota menn lögin sem ástæðu til að kveða upp neikvæða siðferðilega dóma yfir þeim sem ekki virða þau.

Af því sem hér hefur verið sagt ætti að vera ljóst, að Sigurður Líndal er ekki skrifandi á íslenzku, þ.e. hann er ófær um að skrifa skilmerkilegan texta. En jafnframt ætti að vera ljóst, að svo alvarlegir brestir eru í lögfræðilegri og siðfræðilegri þekkingu hans, að hann verður að teljast gersamlega óhæfur til að gegna kennarastarfi í almennri lögfræði og réttarheimspeki, þótt í reynd hafi hann þegið laun fyrir það úr opinberum sjóðum í meira en 40 ár.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.






Skoðun

Sjá meira


×