Viðskipti innlent

Greining Glitnis spáir 10% verðbólgu

Greining Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 1,8% milli mars og apríl. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga aukast úr 8,7% í 10,0%.

Verðbólguvaldar að þessu sinni eru nokkrir. Gengislækkun krónunnar síðastliðnar vikur vegur þyngst og má búast við töluverðri innfluttri verðbólgu næstu vikur vegna hennar.

Áframhaldandi verðhækkun matvöru mun hafa áhrif auk hækkunar hrávöruverðs á erlendum mörkuðum. Aðrar innfluttar vörur eins og bílar hækka einnig töluvert í verði þessar vikurnar sem og verð á eldsneyti. Innlendur uppsafnaður kostnaðarþrýstingur er einnig að koma hratt upp á yfirborðið, meðal annars vegna mikillar launahækkunar á síðasta ári.

Þá segir í umfjöllun greiningar í Morgunkorni að minni samkeppni frá innfluttum varningi auðveldar verðhækkun á innlendum vörum um þessar mundir, enda mikill skriður á verðbreytingum og verðvitund almennings því ekki eins næm og hún gæti verið við aðstæður meiri verðstöðugleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×