Erlent

Skilríki Fosstes fundust í óbyggðum

Óli Tynes skrifar

Steve Fossett var vellauðugur ævintýramaður sem setti mörg heimsmet í flugi. Meðal annars flaug hann fyrstur manna á loftbelg umhverfis jörðina. Það var árið 2002.

Hinn þriðja september á síðasta ári þegar hann var í heimsókn í Kaliforníu fór hann í flug á eins hreyfils flugvél sem hann hafði fengið lánaða. Hann kom aldrei aftur.

Gríðarlega umfangsmikil leit var gerð að Fossett. Hún bar ekki árangur og í febrúar síðasliðnum var hann lýstur látinn.

Maður sem var í óbyggðagöngu í grennd við bæinn Mammoth Lakes gekk fram á muni sem tilheyrðu Fossett. Í veski voru ýmis skilríki meðal annars flugmannsskírteini með mynd af Fossett og eittþúsund dollara í peningum.

Það hafði að vísu verið flogið yfir Mammoth Lakes í leitinni en það var þó talinn ólíklegur staður. Nú er leit hafin að nýju og lögreglan segir að úr lofti hafi sést brak sem gæti verið flak af flugvél.

Þangað verða nú sendar leitarsveitir landleiðina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×