Sigmundur Einar Másson er kominn áfram á næsta stig úrtökumótaraðarinnar fyrir PGA-mótaröðina í golfi er hann hafnaði í 30. sæti á móti í Georgíu-fylki í dag.
Efstu 39 kylfingarnir komust áfram en Sigmundur lék á 75 höggum í dag eða þremur höggum yfir pari. Alls lék hann á tólf höggum yfir pari en alls eru þrjú stig eftir í mótaröðinni og því langur vegur enn eftir.
Mótið sem Sigmundur keppti á er eitt af sex mótum sem er forkeppni fyrir sjálf úrtökumótin. Það eru svo fyrsta, annað og þriðja stig úrtökumótaraðarinnar en keppni á fyrsta stigi fer fram í næsta mánuði.
Á fyrsta stigi verða tólf mót víðsvegar um Bandaríkin og um 25 keppendur sem komast áfram af hverju móti.
Sex mót eru á öðru stiginu en í öllum þessum mótum eru spilaðir fjórir hringir. Sjálft lokamótið fer svo fram annað hvort seint í nóvember eða snemma í desember en efstu 25 kylfingarnir fá keppnisrétt (kort) á PGA-mótaröðinni á komandi keppnistímabili. Þá eru spilaðir sex hringir.