Erlent

Mótmælendur gerðu sig digra í St. Paul

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lögregla hefur vakandi auga með mótmælendum í miðborg St. Paul.
Lögregla hefur vakandi auga með mótmælendum í miðborg St. Paul. MYND/AP

Nýafstaðið flokksþing Repúblikanaflokksins í Minnesota dró að sér fleiri en eindregna stuðningsmenn Johns McCain. Lögreglan í St. Paul handtók um 250 mótmælendur í gær eftir að um eitt þúsund manns komu saman nærri miðborginni þar til að mótmæla stríðsátökum Bandaríkjamanna í Írak og víðar.

Báru mótmælendurnir skilti þar sem meðal annars var spurt hver hinn raunverulegi hryðjuverkamaður væri og því svarað til að það væri John McCain. Lögreglumenn á hestbaki beittu táragasi og hvellsprengjum til að þvinga mótmælendahópinn frá samkomuhúsinu þar sem flokksþingið fór fram og á nokkrum hinna handteknu fundust pokar með saur. Þá bar einn mótmælendanna skammbyssu sem hann reyndist hafa leyfi fyrir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mótmælendur laðast að flokksþinginu því auk þeirra 250 sem nú voru handteknir hafa alls 420 verið handteknir síðan flokksþingið hófst. Á mánudag brutu mótmælendur rúður í verslunum og köstuðu grjóti að lögreglu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×