Erlent

Byssusala góð í New Orleans í aðdraganda fellibyls

Stöðug og þétt umferð er nú á öllum götum út úr bandarísku stórborginni New Orleans, þar sem spáð er að fellibylurinn Gústaf taki land eftir nokkra klukkutíma. Byssusalar hafa haft nóg að gera við að selja þeim byssur sem ætla að verja heimili sín fyrir þjófum. Og á Kúbu eru menn nú að meta skemmdirnar eftir að fellibylurinn fór þar yfir um helgina.

Fellibylurinn skildi eftir sig slóð eyðileggingar á vestanverðri Kúbu í gær. Þar þurftu 250 þúsund manns að leita sér skjóls í neyðarskýlum. Á meðan gekk veðurhamurinn yfir, reif upp tré og rústaði húsum. Meðal þess sem eyðilagðist voru þurrkhús fyrir tóbakslauf, sem er ein helsta útflutningsafurð Kúbverja.

Nú stefnir bylurinn beina leið að Louisiana í Bandaríkjunum og allt bendir til að stórborgin New Orleans verði fyrir honum um klukkan fimm síðdegis að íslenskum tíma í dag. Þegar Katrín fór yfir fyrir þremur árum létust um átján hundruð manns. Nú er undirbúningurinn mun meiri og betri.

Borgarstjórinn fyrirskipaði rýmingu borgarinnar um helgina og hótaði að láta handtaka alla þá sem óhlýðnuðust. Samt sem áður bendir sala á byssum undanfarna daga til þess að einhverjir ætli að vera eftir að verja heimili sín fyrir þjófum.

Repúblikanar ætla að draga úr fyrirhuguðum gleðilátum á landsfundi sínum, sem þykja ekki við hæfi. Bush forseti fer ekki á landsfundinn heldur ætlar hann að ávarpa fundinn um gervihnött. Hann veit sem er að margir muna vel eftir skipulagsleysinu og seinum viðbrögðum bæði hans og undirmanna hans þegar Katrín gekk yfir fyrir þremur árum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×