Erlent

Ike orðinn annars stigs bylur

Tveir menn á gangi á eynni Providenciales í Turks- og Caicos-eyjaklasanum þar sem allt er á floti.
Tveir menn á gangi á eynni Providenciales í Turks- og Caicos-eyjaklasanum þar sem allt er á floti. MYND/AP

Áfram hefur dregið úr styrk fellibyljarins Ike en hann gekk á land á Kúbu í nótt. Hann telst nú annars stigs fellibylur en var í gærmorgun fjórða stigs bylur samkvæmt hinum svokallaða Saffir-Simpson kvarða.

Veðurfræðingar segja of snemmt að segja til um hvar fellibylurinn taki land á suðurströnd Bandaríkjanna en stjórnvöld allt frá Texas til Flórída búa sig undir komu byljarins.

Ríflega 70 manns eru sagðir látnir eftir yfirreið Ikes á Karíbahafi. Að minnsta kosti 80 heimili eyðilögðust á suðausturhluta Kúbu en þar voru öldur allt að fimmtán metra háar í nótt.

Mestum usla olli bylurinn hins vegar á Turks- og Caicos-eyjum en samkvæmt fregnum skemmdust að minnsta kosti 90 prósent heimila á stærstu eyjunni, Grand Turk, og um 40 prósent eyjarinnar eru á kafi. „Þetta er eins og heimsendir hafi átt sér stað," hefur CNN eftir blaðamanni á Grand Turk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×