Erlent

Stríð milli glæpagengja í Kaupmannahöfn blossar upp að nýju

Stríðið milli Hells Angels og glæpagengja af annarri kynslóð nýbúa í Kaupmannahöfn blossaði aftur upp seint í gærkvöldi og nótt.

Þremur skotum var skotið á klúbbhús Hells Angels við Svanevej í norðvesturhluta Kaupmannahafnar en enginn særðist í þeirri árás. Skömmu síðar sást bíl ekið á miklum hraða frá húsinu en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.

Samkvæmt fréttum í dönskum fjölmiðlum telur lögreglan víst að skotárásin tengist stríði því sem Hells Angeles og glæpagengi af annari kynslóð nýbúa hafa háð um völdin á fíkniefnamarkaðinum í Kaupmannahöfn undanfarnar vikur.

Lögreglan í Kaupmannahöfn var á leið í útkall að öðru klúbbhúsi Hells Angels út á Amager er tilkynningin um skotárásina barst. Á Amager fann lögreglan hlaðna afsagaða haglabyssu ásamt skotfærum og nokkrum magn af fíkniefnum aðallega hassi. Leitin kom í framhaldi af því að maður á leið frá klúbbhúsinu var tekinn með nokkrar jónur á sér.

Rannsókn beggja þessara mála heldur áfram í dag en lögreglan í Kaupmannahöfn hefur nú vaxandi áhyggjur af því að stríð milli fyrrgreindra aðila sé að færast í aukana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×