Erlent

Bretar aldrei verið eldri

Margaret Thatcher er á meðal þeirra sem hífa meðalaldurinn upp í Bretlandi.
Margaret Thatcher er á meðal þeirra sem hífa meðalaldurinn upp í Bretlandi. MYND/AP

Í fyrsta sinn í sögunni eru ellilífeyrisþegar í Bretlandi fleiri en börn undir sextán ára aldri. Þetta kemur fram í tölum bresku hagstofunnar sem birtar voru í gær. Þær sýna glögglega að Breska þjóðin er að eldast enda hefur bætt heilbrigðiskerfi og betri lífsskilyrði almennt gert það að verkum að fólk lifir lengur en áður.

Þessi þróun hefur átt sér stað síðan um miðja síðustu öld en nýjustu tölur sýna að kippur hefur komið í fjölgun eldri borgara árin. 571 þúsund bretar létust á síðasta ári miðað við 599 þúsund árið 2001.

Hlutfall fólks á ellilífeyrisaldri jókst um tæp tvö prósent á síðasta ári og eru ellilífeyrisþegar í Bretlandi nú rétt tæpar tólf milljónir eða um nítján prósent af heildar fólksfjölda. Börn undir sextán ára aldri eru hinsvegar aðeins um ellefu og hálf milljón.

Mest fjölgar í aldurshópnum áttatíu ára og eldri og eru nú fimm prósent þjóðarinnar á þeim aldri. Sérfræðingar segja þessa þróun kalla á stórfelldar breytingar í almannatryggingakerfi þjóðarinnar til þess að mæta þessum aukna fjölda eldri borgara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×