Viðskipti innlent

Þriðji besti dagurinn frá upphafi í Kauphöllinni

Wilhelms Petersen, forstjóri Atlantic Petroleum.
Wilhelms Petersen, forstjóri Atlantic Petroleum.

Íslenska úrvalsvísitalan hækkaði um 4,82 prósent í dag sem er þriðji besti dagurinn í sögu Kauphallarinnar að sögn Kaupþings. Stendur vísitalan nú í 5.451 stigi.

Atlantic Petroleum hækkaði langmest, eða um 17,9 prósent, og stendur markaðsvirði þess nú í rétt um 1600 milljónum.

SPRON hækkaði um 9,67 prósent og stendur í 6,69. Exista hækkaði um 7,38 prósent, FL Group um 5,94 prósent og Glitnir banki um 5,88 prósent. Icelandic Group lækkaði í dag, eitt félaga, um 1,12 prósent.

Fram kemur í hálffimmfréttum Kaupþings að bréf hafi hækkað mikið annan daginn í röð þegar fjárfestar gripu gæsina og festu kaup á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum og fjárfestingafélögum sem hafa fallið hvað mest í verði síðustu vikurnar.

Bent er á að dagurinn í dag sé sá besti í rúm sex ár, en 4. október 2001 hækkað úrvalsvísitalan um 6,11 prósent. Þetta er jafnframt þriðji besti dagurinn frá upphafi, það er frá árinu 1993.

„Ætla má að kaupendur hafi beðið á hliðarlínunni eftir að óveðrinu slotaði og streymt inn í stríðum straumum inn á markaðinn í dag eftir að ljóst varð að hann hafði náði til botns í bili á miðvikudaginn. Þessi atburðarás sver sig í ætt við þá þróun sem hefur orðið á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í vikunni," segir í hálffimmfréttunum.

Þó er bent að ekki sé víst að hækkanirnar séu komnar til að vera enda ríki mikil óvissa enn á fjármálamörkuðum með tilheyrandi óstöðugleika. Á hitt beri að líta að verðkennitölur margra íslenskra fyrirtækja - einkum í fjármálaþjónustu - séu orðnar mjög hagstæðar eftir undanfarna lækkunarhrinu.

„Úrvalsvísitalan stóð í 5.531 stigi í upphafi vikunnar en fór um tíma niður fyrir 5.000 stiga múrinn um miðja vikuna. Við lokun markaða á miðvikudaginn hafði vísitalan lækkað um fimmtung frá áramótagildi sínu og um 8,6% á fyrstu þremur viðskiptadögum vikunnar. Markaðir tóku hins vegar við sér í gær; hækkaði vísitalan þá um 2,97%. Dagurinn í dag reyndist hins vegar einn sá besti frá upphafi er Úrvalsvísitalan steig upp um 4,8% eins og áður sagði og endaði vikuna í 5.451 stigi. Úrvalsvísitalan hefur því hækkað um 7,9% frá því hún náði lægsta gildi í vikunni," bendir greiningardeild Kaupþings á.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×