Viðskipti innlent

Bankastjórarnir draga úr ferðinni

New York og Björgvin Guðmundsson skrifa
Bankastjórarnir eru staddir í New York
Bankastjórarnir eru staddir í New York

Allir bankastjórar íslensku bankanna lögðu áherslu á hóflegan vöxt í framtíðinni í núverandi ástandi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á ráðstefnu um íslenskt efnahagslíf og bankana í New York í dag.

Lárus Welding forstjóri Glitnis sagði Ísland og Noreg þau svæði sem bankinn legði áherslu á. Sjávarútvegur og orkugeirinn væri ekki að minnka og þar væru sóknarfæri. Fólk sæktist eftir fiski og olíuverð færi hækkandi. Það gerði endurnýjanlegar orkuauðlindir hlutfallslega verðmætari.

Hann líkti ástandinu nú um stundir eins og að keyra í gegnum snjóstorm. Íslendingar væru vanir því. Þegar illa viðraði færum við varlegar, hægðum á ferðinni og sumir settu jafnvel í fjórhjóladrifið.

Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings lagði áherslu á aukinn hlut innlána í fjármögnun bankans. Þau væru ekki eins viðkvæm fyrir slæmum fréttum eins og margir héldu. Til dæmis hefði það ekki haft nein áhrif að Moody's færði niður lánshæfismat Kaupþings fyrir stuttu.

Hann sagði Kaupþing hafa varið eigið fé sitt að fullu fyrir gengissveiflum krónunnar. Það hefði vissulega verið kostnaðarsamt en væri að borga sig núna.

Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans sagði að bankinn hefði farið varlega og ekki fjárfest í undirmálslánum sem margir væru nú að súpa seyðið af. Lausafjárstaða bankans væri um 13 milljarðar bandaríkjadala og á árinu væri um einn milljarður dala á gjalddaga. Staða bankans væri því sterk.

Sigurjón bætti því við að hann hefði aldrei upplifað þá tíð að reiðufé væri eins verðmætt og nú. Eignir hefðu fallið í verði frá því í september á síðasta ári og ofan á allt þetta væri olíuverð í hæstu hæðum. Allt þetta hefði mikil áhrif á og væri í raun kerfisbreyting í hagkerfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×