Erlent

Tilgangslaust að samþykkja Lissabon-sáttmála

Lech Kaczynski, forseti Póllands, ætlar ekki að samþykkja Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins. Það sé tilgangslaust fyrst Írar höfnuðu honum. Erfitt verk bíður því Frakka sem tóku á miðnætti við forystu í ESB. Frakklandsforseti segir Evrópubúa að missa trú á sambandinu.

Eiffel-turninn í París var lýstur upp í fánalitum Evrópusambandsins í gærkvöldi þegar Frakkar tóku formlega við forystu í sambandinnu næsta hálfa árið. Hátíðarhöld verða við Sigurbogann í frönsku höfuðborginni síðar í dag til að marka upphaf valdatíma Frakka sem tóku við af Slóvenum.

Stjórnmálaskýrendur segja að þær metnaðarfullu áætlanir sem Frakkar hafi gert fyrir það tímabil standist varla eftir að Írar höfnuðu stjórnarsáttmála sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta mánuði. Frakkar ætluðu að reyna sitt til að umbylta innflytjendastefnu ESB, stefnu sambandsins í umhverfis-, landbúnaðar- og varnarmálum.

Nú segir Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hins vegar að forgangsverkefnið sé að sannfæra öll sambandsríki um að samþykkja Lissabon-sáttmálann en öll þurfa þau að gera það svo hann taki gildi. Á meðan verði reynt að finna lausn fyrir Íra.

Lech Kaczynski, forseti Póllands, hefur nú aukið á vandræði Frakka. Hann ætlar ekki að samþykkja stjórnarsáttmálann. Segir það tilgangslaust í ljósi þess að Írar hafi hafnað honum. Kaczynski er íhaldssamur og andvígur stjórnarsáttmála fyrir ESB.

Horst Köhler, forseti Þýskalands, vill einnig bíða með að samþykkja sáttmálann þar til stjórnlagadómstóll landsins hefði kveðið upp úr um lögfræðileg álitamál sem fylgi honum.

Sarkozy segir málið vandasamt. Í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi sagði hann að mistök hefðu verið gerð varðandi uppbyggingu ESB. Nauðsynlegt væri að gera breytingar sökum þess að Evópubúar væru að missa trúna á sambandið. Evrópubúar innan sambandsins velti því margir fyrir þess hvort þeim væri betur borgið hjá stjórnvöldum í eigin landi en hjá sambandinu. Sarkozy segist ætla að endurvekja traust Evrópubúa á Evrópusambandinu meðan Frakkar séu í forystu fyrir það.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×