Innlent

Geir segir þörf á meiri niðurskurði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir Haarde forsætisráðherra.
Geir Haarde forsætisráðherra.

Geir Haarde forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin geri ráð fyrir þörf á meiri niðurskurði í fjárlögum fyrir árið 2010 en fyrir næsta ár, líkt og Poul Thomsen yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi hefur þegar bent á.

Geir segir að þetta þurfi að gerast til að ná jöfnuði og afgangi á fjárlögum á árunum 2012-2013 „Það þýðir auðvitað að það þarf að fara byrja strax eftir áramótin að vinna í undirbúningi fyrir fjárlögin 2010," segir Geir. Hann segir að skoða þurfi alla hluti upp á nýtt og finna út hvar sé hægt að ná sparnaði með niðurskurði og hvar sé hægt að afla nýrra tekna. „Þetta er allt saman hluti af því sem þarf að gera," segir hann.

Geir segir þó ekki tímabært að tala um það núna hvernig þetta verði gert. „Við erum með fangið fullt í vinnu fyrir fjárlög og fjáraukalög fyrir árið 2009. Þannig að við tökum bara eitt mál í einu hérna," segir Geir.

Geir segist vera mjög sáttur við það sem Thomsen hafi haft við sig að segja, en eins og Vísir greindi frá í gær hefur Thomsen verið hér í fjögurra daga heimsókn í þessari viku. Þá sagði Geir að það væri augljóst að kreppan væri að dýpka með alvarlegum afleiðingum. Vextir í Bandaríkjunum væru komnir niður i 0. „Og þá er það mjög gott fyrir okkur að vera komin á ákveðið spor með okkar mál og að vissu leyti í var," segir Geir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×