Innlent

Slæmt að ekki sé tekið á móti öllum háskólanemum

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Útlit er fyrir að ekki verði hægt að taka á móti öllum þeim nemendum sem hafa sótt um skólavist í háskólum landsins. Mjög slæm staða segir þingmaður í menntamálanefnd, sem vill að það verði skoðað hvort hægt sé að breyta kennsluháttum í einhverjum tilfellum svo taka megi á móti fleiri nemendum.

Nær þrefalt fleiri hafa sótt um skólavist í Tækniskólanum nú en venja er, eða yfir 900 manns. Ekki eru fjárveitingar til fyrir öllum þessum fjölda og beiðni um aukafjárveitingu hefur ekki enn verið afgreidd.

Baldur Gíslason skólameistari, segir í Fréttablaðinu í dag að óljóst sé hve mörgum þurfi að vísa frá, að óbreyttu hægt að taka við 500 nemendum. Þá segir Baldur að þegar hafi verið rætt við menntamálaráðuneytið um aukafjárveitingu en ekki hafi enn borist svar.

Rektor Háskóla Íslands hefur einnig sagt að háskólinn geti ekki tekið á móti öllum þeim 1600 nemendum sem hafa sótt um skólavist á vormisseri.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í menntamálanefnd, segir þetta afar slæma stöðu. Hún segir dapurlegt að skorið sé niður menntamálum. Vissulega sé það slæmt ef ekki verður hægt að taka á móti þeim nemum sem vilja koma í skólanna.

Þá segir Ragnheiður að ekki eigi að slá af kröfum um gæði náms en spurning sé hvort að skólarnir geti með einhverjum hætti hagrætt svo hægt verði að taka á móti sem flestum nemendum.

Ragnheiður spyr hvort hægt sé að breyta kennsluháttu, hvort hægt sé að auka fjarnám og hvort skólar geti brugðist við með öðrum hætti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×