Innlent

Eins og eftir loftárás

„Allir vinna nú eins og einn maður að því að koma daglegu lífi í eðlilegt horf," segir Eyþór Arnalds, bæjarstjórnarfulltrúi Árborgar. Þegar Vísir náði tali af Eyþóri var hann að ganga út af fundi með bæjarstarfsmönnum þar sem farið var yfir stöðuna.

Í Árborg og nálægum sveitafélögum hefur allt bæjarstarf verið í uppnámi og hafa skólar meðal annars legið niðri. Eyþór segir það hins vegar heppilegt að skjálftinn hafi átt sér stað meðan veður er milt en ekki yfir miðjan vetur. Búið er að skrúfa fyrir heitt vatn á ýmsum stöðum og á mörgum heimilum er vatn gruggugt og skítugt.

Að sögn Eyþórs hafa Björgunarsveitirnar staðið sig ótrúlega vel og unnið feykilegt gott starf. Hafa þær komið vatnsflöskum til fólks og sinnt ýmsum tilfallandi hjálparstörfum, m.a. hjálpað eldra fólki að komast inn á baðherbergi sín sem húsgögn höfðu lokað eftir læti jarðskjálftans.

Eyþór segir að elstu menn muni ekki eftir öðru eins en sjálfur segir hann áfallið mest andlegt. „Raunveruleikinn eins og hann blasir við er andlegt áfall sem fólk þarf að glíma við. Fólkinu líður eins og það hafi lent í loftárás."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×