Innlent

Verð á einstökum vörum hefur tvöfaldast á hálfu ári

MYND/Valgarður

Dæmi eru um að verð á einstökum vörum í matvöruverslunum hafi hækkað um yfir 100 prósent á síðastliðnu hálfu ári. Þetta leiða verðkannanir ASÍ í ljós.

Fram kemur á heimasíðu sambandsins að verðlagseftirlitið hafi verið á ferð á þriðjudag og komst þá að því að matvara hefur hækkað um tugi prósenta á hálfu ári. Algengt er að vörur hafi hækkað um 30-50 prósent frá því í verðkönnun verðlagseftirlitsins í vor en dæmi eru um að verð hafi tvöfaldast sem fyrr segir. Verð hefur almennt hækkað mest í lágvöruverðsverslunum á milli kannana. Verð á brauði, kexi, pasta, og hrísgrjónum hækkaði í flestum tilvikum yfir 50 prósent í lágvöruverðsverlunum en nokkuð minna í öðrum verslunum. Þá hefur verð á mjólk hækkað um 25-30 prósent frá því í vor.

ASÍ bendir enn fremur á að grænmeti og ávextir hafi einnig hækkað mikið. Til að mynda hækkaði kílóverð á banönum mest í Bónus, eða um 83 prósent. Minnst hafa bananarnir hækkað í Fjarðarkaupum um fimm prósent.

Af öðrum vörum má nefna púðursykur frá Dansukker hefur hækkað um 106 prósent í Krónunni og 88 prósent í Bónus frá því vor. Hann er nú dýrari í lágvöruverðsverslununum en í Hagkaupum og á svipuðu verði og í Nóatúni.

„Þegar skoðaður er munur á meðalverði í lágvöruverðsverslunum og öðrum stórmörkuðum nú í nóvember og í vor má sjá að í flestum tilvikum er mun minni munur á meðalverði í þessum verslunargerðum nú en í vor. Verð í lágvöruverðsverslunum hefur almennt hækkað meira en í öðrum verslunum sem þýðir samkvæmt þessu að verðmunur á milli lágvöruverðsverslana og annarra stórmarkaða hefur minnka," segir á vef ASÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×