Innlent

Samfylkingin og VG hafa lagt niður rófuna og vinna með meirihlutanum

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans og fyrrum borgarstjóri.
Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans og fyrrum borgarstjóri.

Svo virðist sem borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hafi lagt niður rófuna við síðustu meirihlutaskipti og ákveðið að vinna alfarið með nýjum meirihluta gegn því að fá dúsur í starfshópum hjá meirihlutanum, að mati Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa. ,,Raunar mætti orða þetta þannig að flestir borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilji ,,alcoa" með meirihlutanum."

Ólafur mótmælti harðlega á fundi borgarráðs í dag því sem hann kallar ólýðræðisleg og óvönduð vinnubrögð við undirbúning fjárhagsáætlunar Reykjavíkur. Hann segir að áralöng hefð um aðkomu allra framboða í borginni að fjárhagsvinnunni hafi verið rofin af meirihlutafulltrúum í borgarstjórn með vilja Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Aðrir en Vilhjálmur sinntu ekki vinnu

Ólafur segist hafa ötullega unnið að fjámálastjórn borgarinnar í borgarstjóratíð sinni. ,,Eini borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem gaf sér tíma til að vinna með undirrituðum að fjármálum borgarinnar var þáverandi formaður borgarráðs, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sinntu þeirri vinnu einfaldlega ekki," segir í bókun Ólafs.

Gagnrýni Ólafs vísað á bug

Í bókun meirihlutans segir að fjárhagsáætlunin hafi verið unnin á grundvelli aðgerðaráætlunar Reykjavíkurborgar sem var unnin í breiðri pólitískri samstöðu og samþykkt af öllum borgarfulltrúum í borgarstjórn í byrjun október. Gagnrýni Ólafs um ófullnægjandi málsmeðferð er vísað á bug.

,,Það er rétt að vinnan við fjárhagsáætlun er að mörgu leyti óhefðbundin að þessu sinni, bæði vegna þess að aðstæður í íslensku efnahagslífi eru með þeim hætti sem allir þekkja en einnig vegna þess að samstarf fulltrúa meirihluta og minnihluta um málið er meira en verið hefur í gegnum aðgerðahóp borgarráðs. Öllum reglum um málsmeðferð fjárhagsáætlunar hefur verið fylgt, eins og fram hefur komið í umfjöllun fjármálastjóra," segir í bókun meirihlutans.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×