Erlent

Deilt um Bratz dúkkurnar

Bratz dúkkurnar vinsælu.
Bratz dúkkurnar vinsælu.

Hart er deilt um höfundarréttinn á svokölluðum Bratz dúkkum fyrir bandarískum dómstólum þessa dagana. Lögmaður Mattel, stærsta leikfangaframleiðanda í heimi, segir að fyrirtækið eigi réttinn á að framleiða dúkkurnar.

Lögmaðurinn fullyrðir að MGA fyrirtækið, sem framleiðir dúkkurnar, hafi stolið hugmyndinni. Hann segir að Mattel eigi höfundarréttinn á dúkkunum vegna þess að hönnuður þeirra, Carter Bryant, hafi skapað þær á þeim tíma sem hann starfaði fyrir Mattel. Hann hafi síðan hætt störfum og flutt sig yfir til MGA. Lögmaðurinn sagði að þetta skýrði hvers vegna MGA, sem hefði aldrei áður hannað tískudúkku, hefði á svo skömmum tíma getað skapað svo vinsæla dúkku. Stjórnendur MGA visa þessum fullyrðingum til föðurhúsanna.

Mattel fyrirtækið hefur framleitt Barbie dúkkur um árabil en salan á þeim hefur dregist verulaga saman síðan að Bratz dúkkurnar komu á markað árið 2001. Fyrirtækið hefur því orðið af verulegum tekjum. Takist lögmönnum hinsvegar að sanna að MGA hafi stolið hugmyndinni að Bratz mun Mattel eiga rétt á hundruðum milljóna bandaríkjadala í höfundarréttarlaun frá MGA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×