Innlent

Tíma ráðherra illa varið að bíða löngum stundum í flugstöðvum

MYND/Stefán

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gerir engar athugasemdir við að ráðherrar ferðist með einkaþotu á NATO-fund og segir tíma ráðherra illa varið að bíða löngum stundum í flugstöðvum. Framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands segir það að sínu mati skjóta skökku við að ráðherrar velji þennan kost þegar þeir hafi boðað aðhald í samfélaginu.

Eins og fram hefur komið á Vísi fóru þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ásamt fylgdarliði á einkaþotu á leiðtogafund NATO sem hefst í Búkarest í Rúmeníu í dag. Samkvæmt heimildum Vísis er kostnaðaraukinn við það að velja einkaþotu í stað almenns flugs um sex milljónir króna.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ segir að hann hafi hlustað á forsætisráðherra útskýra í gær að kostnaðurinn væri svipaður, sama hvor leiðin væri farin. Gylfi segist ekki vita hvernig kostnaðurinn sé reiknaður en skilaboðin séu skrýtin í ljósi efnahagsaðstæðna.

„Auðvitað er tími ráðherra dýrmætur en skilboðin skjóta skökku við þegar búið er gefa það út að fólk þurfi að sýna aðhald. Þegar þær aðstæður eru upp í þjóðarbúskapnum að staða þjóðarbúsins er grafalvarleg, eins og nú, verða stjórnmálamenn að sýna eitthvað í verki. Orðræðan verður innantóm þegar því fylgja ekki athafnir," segir Gylfi.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gerir engar athugasemdir við ákvörðun ráðherranna. „Við treystum því að þau séu að gæta hagkvæmni bæði við noktun á eigin tíma og á fjármunum hins opinbera. Mér finnst að tíma ráðherra sé mjög illa varið í að þau séu að bíða löngum stundum í flugstöðvum," segir Vilhjálmur.


Tengdar fréttir

Einkaþotuflugið óvistvænt bruðl

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir það óverjandi að ferðast með einkaþotu á NATO-fundinn eins og þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir Haarde ákváðu að gera og Vísir greindi frá í gær.

Geir og Ingibjörg Sólrún með einkaþotu á NATO-fund

Íslenska sendinefndin sem fer á leiðtogafund NATO í Búkarest á morgun mun ferðast með einkaþotu til Rúmeníu frá Íslandi. Aðstoðarkona forsætisráðherra segir kostnaðarmuninn á ferðinni miðað við áætlunarflug óverulegan. Með vélinni fara þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra auk fylgdarliðs og blaðamanna.

Ríkisstjórnin gerir ekkert nema panta sér einkaþotu

„Forsætisráðherra hélt blaðamannafund og lýsti þar yfir að ekki væri ástæða til þess að gera nokkuð og pantaði sér einkaþotu til þess að skjótast niður til Evrópu“ skrifar Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins á heimasíðu sína í gær.

Segir för oddvitanna forkastanlega

„Mér finnst þetta forkastanlegt!“ segir Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, inntur álits á ferðalagi Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Rúmeníu en för þeirra hófst í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×