Innlent

Erfiðleikar ekki meiri en á fyrri tímum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði við þingsetningu Alþingis í dag að vandamálin nú væru ekki meiri nú á fyrri tímum þegar Íslendingar börðust fyrir sjálfstæði og útfærslu landhelginnar. Þá sagði að erfiðleikarnir gæfu hvorki tilefni til uppgjafar né örþrifaráða. „Þvert á móti er þjóðin nú ríkulega búin að auðlindum, fjölþættri menntun og margþættri reynslu, nýtur velvildar hjá öllum ríkjum," sagði forsetinn.

Forsetinn gerði fullveldisbaráttuna að umtalsefni sínu í ræðu sinni á þingsetningu en 1. desember eru 90 ár frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Hann sagði að baráttan hefði verið hörð. „Hollt er nú þegar við siglum um úfinn sjó, öldurót er í efnahagsmálum, bæði hér heima og erlendis, að sækja lærdóma í baráttuna fyrir þeim sigrum í sögu landsins sem reynst hafa einna stærstir, lærdóma sem eru vegvísar um að víðsýni og stjórnviska leiða jafnan tilfarsælla lausna þegar þjóðin öll er samferða forystumönnum, þegar vissan um réttlæti og góðan málstað er í hávegum höfð," sagði Ólafur Ragnar.

Þá rifjaði hann upp hversu stór stund það hefði verið fyrir Íslendinga að öðlast fullveldi og vísaði til frásagna af atburðunum 1918. Vitnaði hann til ritstjórnargreinar Morgunblaðsins við það tilefni. Þar stóð: „Í dag fá Íslendingar það hlutverk, að halda uppi sæmd yngsta ríkisins í heiminum. Og vonandi finnur öll þjóðin til vandans, sem þeirri vegsemd fylgir, til ábyrgðarhlutans, sem fallinn er oss í skaut með sambandslögunum nýju. Það er eigi minna um vert, að kunna að gæta fengins fjár en að afla þess. Og því er það, að svo áríðandi og mikilsvert sem oss hefir verið starf vitrustu og bestu manna þjóðarinnar í baráttunni fyrir réttinum, þá er hitt eigi síður vandi, að gæta réttarins. Aldrei hefir þjóðinni fremur en nú riðið á að eiga vitra menn og góða til þess, að verja lífi sínu og orku í þágu þjóðar sinnar."

Forsetinn spurði hvort Íslendingar hefðu efni á glata slíkum dögum og hét á Alþingi að færa þjóðinni 1. desember á ný. „Oft var þörf en nú og á komandi tímum er brýn nauðsyn að við eignumst slíkan samræðuvettvang, umræðufarveg þar sem grunngildi Íslendinga kallast á við verkefni dagsins, vandamálin sem bíða lausnar. Ég heiti á Alþingi að taka nú forystu í þessum efnum, veita 1. desember þá virðingu sem honum ber og gera það í tæka tíð fyrir aldarafmæli fullveldisins 2018," sagði forsetinn.

Enn fremur kom Ólafur Ragnar að því hvernig sigur hefði unnist í landhelgisbaráttunni. „Án ákvarðana Alþingis hefði landhelgisbaráttunni aldrei verið ýtt úr vör. Sigrarnir sem unnust voru í senn Alþingis og þjóðarinnar. Það er því líkt og með 1. desember einkum hlutverk Alþingis að tryggja að hin merka saga um útfærslu landhelginnar, þekkingin á þeim tímabilum sem við nefnum landhelgisstríðin, verði þjóðinni ávallt nákomin, að um alla framtíð sæki kynslóðir vísdóm og kraft í lýsingar á þessum örlagatímum hins íslenska lýðveldis," sagði forsetinn.

Þá sagði hann að sagan kenndi mönnum að djúpstæð vissa um að réttlæti „og hagur allra, sanngirni og samstaða séu höfð að leiðarljósi, að lýðræðisleg umfjöllun og aðhald ráði för, hafa verið og verða ávallt forsendur þess að gagnkvæmt traust myndist milli þings og þjóðar og landsmenn skipi sér að baki stefnunni sem hér er mótuð," sagði forsetinn.

 

Þingsetningarathöfnin hófst klukkan hálftvö með guðsþjónustu í Dómkirkjunni þar sem séra Anna Sigríður Pálsdóttir dómkirkjuprestur predikaði og þjónaði fyrir altari ásamt biskupi Íslands, herra Karli Sigurbjörnssyni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×