Innlent

Hafa þungar áhyggjur af þróun efnahagsmála

Finnbjörn A. Hermansson, formaður Samiðnar.
Finnbjörn A. Hermansson, formaður Samiðnar. MYND/GVA

Miðstjórn Samiðnar lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun efnahagsmála og kallar eftir víðtæku samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að koma á fót styrkri efnahagsstjórn sem tryggi stöðugleika og gott rekstrarumhverfi atvinnulífsins.

Í ályktun frá félaginu er bent á að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði um miðjan febrúar hafi átt að stuðla að stöðugleika og tryggja kaupmátt til lengri tíma. Síðustu vikur hafi hins vegar einkennst af miklum efnahagslegum óstöðugleika, hækkandi verði á nauðsynjavörum og spáð sé vaxandi atvinnuleysi þegar komi fram á haustið.

Krefst miðstjórn Samiðnar þess að stjórnvöld beiti öllum þeim tækjum sem þau ráða yfir til að koma í veg fyrir að hér skelli á atvinnuleysi með öllum þeim hörmungum sem því fylgi. „Miðstjórnin bendir á að Ísland er ríkt samfélag sem á að geta staðið af sér skammvinna niðursveiflu, en aukið atvinnuleysi og hækkandi verðlag á nauðsynja vörum kemur verst niður á þeim sem lakast standa," segir í ályktun miðstjórnar Samiðnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×