Erlent

BBC opinberar styrjaldarávarp

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Breska ríkisútvarpið hefur gert opinbert handrit frá því snemma á áttunda áratugnum sem flutt hefði verið bresku þjóðinni ef kjarnorkusprengju yrði varpað á landið.

Skrúfið fyrir gasið og umfram allt ekki sturta niður úr salerninu er meðal þess sem fram kemur í leiðbeiningum sem breska ríkisútvarpið BBC hefði útvarpað í kjarnorkustyrjöld. Þetta hefði fáum þótt í anda þrumuræðna Winstons Churchill, forsætisráðherrans sem leiddi þjóðina gegnum síðari heimsstyrjöldina en leitast var við að hafa ávarpið eins leiðbeinandi og kostur var í stað þess að blása almenningi baráttuanda í brjóst.

Handritið var varðveitt í skjalageymslum stofnunarinnar sem leyndarmál en hefur nú verið gert opinbert. Einnig hafði verið gerð upptaka sem hefði verið reiðubúin til útsendingar kæmi til hamfara og átti dagskrárliðurinn að bera titilinn styrjaldarútvarpið eða Wartime Broadcasting Service. Útsending þess hefði hafist á orðunum þetta er styrjaldarútvarpið, ráðist hefur verið á landið með kjarnorkuvopnum. Í kjölfarið átti að senda út einfaldar leiðbeiningar til fólks um að fara ekki út, borða dósamat, spara vatnið og umfram allt...hlusta á BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×