Innlent

Deiliskipulag fyrir Laugaveg 4 og 6 samþykkt

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær breytingu á deiliskipulagi reits vegna Laugavegar 4 og 6. Breytingin var samþykkt með sex atkvæðum en Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sat hjá við afgreiðslu málsins.

Fyrr á árinu ákvað meirihluti Sjálfstæðisflokksins og F-lista að kaupa húsin tvö af Kaupangi sem hugðist rífa þau og byggja hótel á reitnum. Borgin greiddi 580 milljónir króna fyrir húsin við hávær mótmæli meðal annars frá Óskari, sem nú situr í meirihluta. Hann sagði meðal annars að almannfé hefði verið notað til þess að kaupa ónýt hús.

Við breytinguna á deiliskipulagi reitsins í borgarráði í gær lét Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, hins vegar bóka að uppbygging á lóðinni Laugavegi 4-6 í gömlum tíðaranda á elsta hluta Laugavegarins væri fagnaðarefni og varpaði skýru ljósi á þá hugarfarsbreytingu sem orðið hefui varðandi verndun menningarminja í Miðborg Reykjavíkur.

„Ég minni á að árið 2005 flutti ég tillögu og beitti mér einn borgarfulltrúa fyrir því að borgin keypti húsin á Laugavegi 4-6 og stæði að uppbyggingu á lóðinni með þeim hætti sem nú er að verða staðreynd. Þannig yrði tryggt að iðandi mannlíf, þar sem sólin skín á borgarbúa í menningarlegu umhverfi, ríki áfram á elsta hluta Laugavegarins. Það eru almannahagsmunir í nútíð og framtíð," sagði Ólafur í bókun sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×