Erlent

Atvinnulausum í Bandaríkjunum fjölgar meira en búist hafði verið við

MYND/AP

Atvinnulausum í Bandaríkjunum fjölgaði um 159 þúsund í nýliðnum september samkvæmt tölum sem bandarísk yfirvöld birtu í dag. Það var nokkuð meira en greiningaraðilar höfðu búist við.

Frá upphafi árs hefur störfum í Bandaríkjunum fækkað um 750 þúsund og lýsti talsmaður Bandaríkjaforseta yfir vonbrigðum með nýjustu tölur í dag. „Það mun taka nokkurn tíma fyrir efnahagslífið að ná sér eftir húsnæðislánakreppuna, hækkandi orkuverð og lánsfjárþurrðina," sagði Tony Fratto, talsmaður Bandaríkjastjórnar.

John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana, sagði efnahagslífið á rangri leið og að mikilvægt væri að Bandaríkjaþing tækist á við fjármálakreppuna og verði skattgreiðendur fyrir áföllum. Hann væri staðráðinn í að komast að rótum kreppunnar, endurbylta stjórnkerfinu í Washington og taka til eftir græðgiskapítalisma sem íbúðarlánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac hefðu stuðlað að.

Barack Obama, forsetaframbjóðandi demókrata, sagði hins vegar að ekki væri hægt að bjóða bandarísku þjóðinni upp á stefnu McCains sem þýddi áframhald á stefnunni sem hefði rústað miðstéttinni á síðustu átta árum. Hann myndi skapa milljónir starfa með því að fjárfesta í innviðum samfélagsins og endurnýjanlegum orkugjöfum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×