Innlent

Filippseyskar mæðgur gera kröfu í dánarbú Fischers

MYND/Pjetur

Filippseysk kona og dóttir hennar gera kröfur í dánarbú fyrrverandi stórmeistarans Bobbys Fischers sem lést hér á landi fyrir skemmstu. Frá þessu er greint á fréttavef Reuters.

Þar er haft eftir lögmanninum Samuel Estimo að hann sé að safna sönnunargögnum fyrir því að Fischer sé faðir stúlkunnar sem nú er sjö ára og heitir Jinky. Hana á Fischer að hafa getið með Marilyn Young árið 2001.

Lögmaðurinn segir að að mæðgurnar hafi meira að segja heimsótt Fischer hingað til lands í september 2005. „Ég er með afrit af vegabréfi, myndum og bankayfirlitum frá sjö ára dóttur Fischers," segir Estimo og bætir við að krafan í dánarbúið verði lögð fram hér á landi. Enn fremur kemur fram í fréttinni að dánarbú Fischers nemi 120 milljónum.

Mæðgurnar bætast í hóp þeirra sem gera kröfu í dánarbú Fischers, en auk þeirra eru það hin japanska Myoko Watai, sem segist hafa verið gift Fischer, og frændur hans frá Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×