Sport

Phelps búinn að taka gull í bronsgreinunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Phelps fagnar sigri í 200 metra skriðsundi.
Michael Phelps fagnar sigri í 200 metra skriðsundi. Nordic Photos / AFP

Þó svo að Michael Phelps sé „aðeins" búinn að vinna til þriggja gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking mætti halda því fram að erfiðustu hindranarnar væru yfirstaðnar.

Á Ólympíuleikunum í Aþenu fyrir fjórum árum vann Phelps til sex gullverðlauna og tveggja bronsverðlauna. Hann náði þar með ekki að jafna met Mark Spitz sem vann sjö gullverðlaun í sundi á Ólympíuleikunum í München árið 1972.

Phelps er hins vegar búinn að vinna gull í báðum þeim greinum sem hann fékk brons í fyrir fjórum árum - 4x100 metra boðsundi karla í skriðsundi og 200 metra skriðsundi.

Fyrri greinin var ótrúlega spennandi en Bandaríkjamenn tóku gullið á hreint ótrúlegum lokaspretti þegar franska sveitin virtist vera með sigurinn í hendi sér.

Í nótt vann hann svo öruggan sigur í 200 metra skriðsundi og setti um leið nýtt heimsmet. Hann kom tveimur sekúndum á undan næsta manni í mark.

Dagurinn á morgun verður þó erfiður en þá keppir hann væntanlega til úrslita í tveimur greinum - 200 metra flugsundi og 4x200 metra skriðsundi.

Alls hefur Phelps unnið til níu gullverðlauna sem er metjöfnun. Mark Spitz, frjálsíþróttakappinn Carl Lewis frá Bandaríkjunum, Paavo Nurmi sem var einnig þekktur sem „Finninn fljúgandi" og Larysa Latynina, fimleikakona frá Úkraínu unnu öll einnig til níu gullverðlauna.

Það er nokkuð ljóst að Phelps mun bæta met þeirra, væntanlega á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×