Innlent

Burðardýr í tveggja ára fangelsi fyrir þrjú kíló af amfetamíni

Tuttugu og eins árs gamall karlmaður, Andri Þór Eyjólfsson, var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í morgun fyrir innflutning á fíkniefnum í apríl síðast liðnum.

Andri kom til Keflavíkurflugvallar frá París mánudaginn 7.apríl á þessu ári. Þegar hann kom að hliði sem ætlað er þeim sem ekki hafa tollskyldan varning meðferðis og veitti fíkniefnahundur piltinum nokkra athygli.

Andri hafði meðferðis eina ferðatösku og eina handtösku og var því færður til skoðunar í leitarklefa tollgæslunnar þar sem leitað var í farangri hans. Kom þá í ljós pakki undir fölskum botni í ferðatöskunni og í kjölfarið var lögregla kölluð til.

Andri viðurkenndi strax að fíkniefni væru í ferðatöskunni og sagði að líklega væri um að ræða 1400-1800 grömm af amfetamíni. Sagðist hann hafa flutt efnin hingað til lands fyrir aðila sem hann vildi ekki nafngreina en með því hafi hann verið að greiða upp fíkniefnaskuld.

Við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða tæp þrjú kíló af amfetamíni. Sagði Andri fyrir dómi að hann hefði verið kominn í 800.000 króna skuld vegna fíkniefnakaupa þegar honum bauðst til þess að fara út og flytja inn umrædd fíkniefni.

Eins og fyrr segir var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi en til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhald sem hann sat í frá 8. Til 17.apríl sl.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×