Viðskipti innlent

Verðbólguvæntingar fyrirtækja lækka verulega

Verðbólguvæntingar fyrirtækja hafa lækkað verulega undanfarið samkvæmt könnun Capacent Gallup en niðurstöður hennar voru birtar í Hagvísum Seðlabankans fyrir nóvembermánuð. Könnunin var framkvæmd í september og október.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að samkvæmt könnuninni gera forsvarsmenn fyrirtækja nú ráð fyrir að verðbólga næstu tólf mánaða verði 7% en þegar síðasta könnun var framkvæmd í júnímánuði bjuggust þeir við að árstaktur verðbólgu yrði 10%.

Þetta kemur ekki á óvart í ljósi þess hversu margt hefur breyst á þessum örfáu mánuðum, en útlit er nú fyrir að verðbólgan hjaðni hratt á næsta ári eftir að hafa náð hámarki á næstu mánuðum. Verðbólguþrýstingur mun minnka mikið á næsta ári þegar áhrif gengislækkunar taka að fjara út samhliða því sem lítið verður að gerast í hagkerfinu og þensla því í lágmarki.

Tólf mánaða verðbólga stendur nú í 17,1%. Samkvæmt Hagvísum Seðlabankans er tólf mánaða undirliggjandi verðbólga nú 15,5% en þá eru ekki teknir með sveiflukenndir þættir sem hafa áhrif á mælingar verðlags.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×