Innlent

Mikið sparast við fækkun yfirstjórna

Halldór Halldórsson Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sameining sveitar-félaga er ráðstöfun sem hlýtur að koma til alvarlegrar skoðunar í hagræðingaraðgerðunum sem nú er gripið til í samfélaginu öllu. Þetta er mat Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra á Ísafirði og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Halldór telur reynsluna af þeim sameiningum sem orðið hafa á síðustu tæpu tuttugu árum almennt góða en frá 1990 hefur sveitar-félögum fækkað úr 224 í 78. „Þegar hefur verið hagrætt mikið en ég er sannfærður um að það eru miklir möguleikar á frekari hagræðingu," segir Halldór sem er til dæmis þeirrar skoðunar að sameina beri öll sveitarfélög á Vestfjörðum í eitt.

Halldór segir að við sameiningu sveitarfélaga sparist fyrst og fremst peningar með fækkun yfirstjórna. Þar geti hlaupið á talsvert háum fjárhæðum. Á móti komi að oft verði til nýr kostnaður, til dæmis, vegna almenningssamgangna og margvíslegrar nærþjónustu. Nettóniðurstaðan sé engu að síður sparnaður en hafa beri í huga að hann skilar sér ekki endilega strax.

Fyrir nokkrum árum kynnti Þórður Skúlason, þáverandi framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga, eigin hugmyndir um sameiningu. Gerðu þær ráð fyrir rúmlega þrjátíu sveitarfélögum í landinu. Halldór segist telja hugmyndir Þórðar góðar, raunhæft sé að fækka sveitarfélögum um rúmlega helming.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×