Innlent

Olíugróði Drekasvæðis skattlagður um allt að 59%

Skattar íslenska ríkisins af hugsanlegri olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu verða allt að 59 prósent af tekjum sem olíulindirnar gefa. Þetta er nokkru lægra hlutfall en Norðmenn taka hæst en sambærilegt við skattlagningu Færeyinga og Kanadamanna.

Íslenska ríkið stígur fyrsta skrefið inn í hinn alþjóðlega olíuheim þann 15. janúar næstkomandi þegar útboð hefst á réttindum til leitar og vinnslu á Drekasvæðinu. Vegna þessa lögfesti Alþingi í gær þá umgjörð sem verður um málaflokkinn en samkvæmt henni er Orkustofnun falið að halda utan um kolvetnisvinnsluna, það er vinnslu á olíu og gasi. Ríkinu verður heimilað að stofna hlutafélag um olíuvinnslu, þó ekki félag í líkingu við hið norska Statoil, því hlutafélaginu verður óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki, heldur er því einkum ætlað að halda utan um hagsmuni Íslands á norska hluta Drekasvæðisins. Þá er búist við að Alþingi lögfesti á morgun sérlög um skattlagningu olíu- og gasvinnslu. Lagt verður á vinnslugjald, sem á fyrstu 20 milljónir tunna verður 5% en fer síðan stighækkandi allt upp í 58% af verðmæti. Vinnslugjaldið fellur svo niður og við tekur kolvetnisskattur þegar hagnaður vinnslunnar er kominn yfir 20% af tekjum, og verður fyrst 5,5 prósent. Skatturinn fer síðan stighækkandi eftir því sem hagnaðurinn eykst allt upp í 44 prósent af tekjum. Því til viðbótar bætist síðan 15% tekjuskattur þannig að ríkið fengi þá allt að 59 prósent af tekjunum. Í Noregi fer skattheimtan allt upp í 78 prósent af hagnaði en samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun var ákveðið að hafa þetta ívið lægra hérlendis og taka í þeim efnum fremur mið af skattareglum í Kanda og Færeyjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×