Innlent

Rússneskar sprengjuvélar inn á íslenska flugstjórnarsvæðið í gær

Rússneska herflugvélar hafa undanfarin  misseri flogið nærri landinu og vel hefur verið fylgst með ferðum þeirra.
Rússneska herflugvélar hafa undanfarin misseri flogið nærri landinu og vel hefur verið fylgst með ferðum þeirra. MYND/Stöð 2

Tvær rússneskar sprengjuflugvélar flugu inn í íslenska flugstjórnarsvæðið í gærmorgun og fóru einn hring í kringum landið. Þær flugu þó ekki upp að ströndinni heldur stóran hring í kringum landið.

Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, bárust engar tilkynningar frá rússneskum yfirvöldum um flugið en þau hafa stundum tilkynnt þau, síðast í júní. Fylgst var með flugi vélanna í ratsjárstöðvunum hér á landi og voru vélarnar tvær um þrjá og hálfan tíma að fara hringinn.

Aðspurð hvort íslensk yfirvöld hafi kallað eftir skýringum frá Rússum segir Urður að það hafi ekki verið gert í þetta sinn. „Við höfum gert rússneskum yfirvöldum skýra grein fyrir því að við viljum að allt svona flug sé tilkynnt og þau vita að við erum ekki sátt við þetta," segir Urður.

Íslendingar hafa átt gott samtarf við Norðmenn og Breta þegar rússneskar hervélar hafa flogið hingað og að sögn Urðar fylgdust þarlend yfirvöld með vélunum enda koma rússneskar vélar jafnan af flugstjórnarsvæðum þessara landa og inn á það íslenska. Ekki hafi verið ástæða til þess að kalla til herþotur frá þessum löndum í þessu tilviki en Norðmenn og Bretar hafi fylgst mjög vel með þessum málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×