Viðskipti innlent

Ólík sýn á þróun einkaneyslu í nýjum spám

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, sérfræðingur greiningardeilar Landsbankans.
Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, sérfræðingur greiningardeilar Landsbankans.
Í nýjum hagspám fjármálaráðuneytsisins og Seðlabankans ber mest í milli hvað varðar þróun einkaneyslu. Tveir virkir dagar liðu á milli spánna. Peningamál Seðlabankans voru kynnt 10. þessa mánaðar og endurskoðuð þjóðhagsspá síðasta þriðjudag.

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, sérfræðingur greiningardeildar Landsbankans segir forsendur ólíkar í spánum. Hvað varðar þróun einkaneyslu vegur þyngst ólík sýn á verðþróun á fasteignamarkaði, en fylgni er á milli hennar og einkaneyslu. Þar spáir Seðlabankinn 30 prósenta samdrætti fram til 2010, en ráðuneytið helmingi minni raunlækkun húsnæðis.

„Svo gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir því að krónan verði í styrkingarfasa út árið 2010 og endi í gengisvístölunni 130 og telja að þar sé jafnvægisgildi krónunnar,“ segir Kristrún, en bætir um leið við að greiningardeild Landsbankans telji að það gildi fullágt og vegna verðbóluáhrifa hér heima sé jafnvægisgildið nær 140 stigum. Seðlabankinn gerir líka ráð fyrir veikari krónu en fjármálaráðuneytið og telur að vísitala hennar verði í tæpum 143 stigum árið 2010. „Vegna þessara ólíku forsenda reiknar Seðlabankinn með mikilli niðursveiflu bæði 2009 og 2010, en fjármálaráðuneytið gerir bara ráð fyrir neikvæðum hagvexti 2009 áður en að kemur að viðsnúningi.“

Þá segir Kristrún athyglisverða nálgun ráðuneytisins hvað varðar stóriðju í endurskoðaðri þjóðhagsspá. „En þar virðast þeir vera að opna möguleikann á frekari framkvæmdum,“ segir hún en í fráviksspá eru teknar inn í myndina framkvæmdir sem sagðar eru geta aukið hagvöxt um 1,0 til 1,5 prósent á spátímanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×