Viðskipti innlent

Fá starfsmenn Landsbankans greidd laun?

Frá starfsmannafundi í Landsbankanum.
Frá starfsmannafundi í Landsbankanum.

Eiríkur Elís Þorláksson héraðsdómslögmaður hjá LEX lögmannsstofu segir ákvæði í neyðarlögunum svokölluðu sem sett voru á mánudaginn orka tvímælis. Þar segir að lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti gildi ekki. Eiríkur telur að um þetta atriði verði deilt á næstunni.

Launamál starfsmanna Landsbankans hafa verið töluvert í umræðunni í dag. Aðspurður um yfirvofandi uppsagnir þar segir Eiríkur málið skiptast í tvo þætti. Annarsvegar það sem snýr að þeim starfsmönnum sem sagt verði upp störfum og síðan þeim sem fá vinnu hjá hinum nýja Landsbanka sem nú hefur verið stofnaður.

Eiríkur segir að sé starfsmönnum sagt upp störfum gildi þær reglur sem fram koma í ráðningasamningi viðkomandi. Að jafnaði sé t.d uppsagnarfrestur þrír mánuðir en stundum séu það t.d fjórir eða sex mánuðir, það fari eftir atvikum. Launin sem viðkomandi fær á umræddum uppsagnarfesti taki mið af ráðningasamningi en ef bankinn verði úrskurðaður gjaldþrota horfi málið öðruvísi við því starfsmenn eigi þá kröfu í þrotabúið.

„Ef ekkert fæst upp í slíka kröfu þá er næsta skref að fá greiðslu úr ábyrgðarsjóði launamanna sem er að hámarki 345 þúsund krónur á mánuði og takmarkast við þrjá mánuði," segir Eiríkur og tekur dæmi um starfsmann sem er með milljón í laun á mánuði og sex mánaða uppsagnarfrest.

Viðkomandi hefði þá fengið 6 milljónir en í staðinn fær hann einungis þrisvar sinnum 345 þúsund af kröfunni greidda.

Hvað þá starfsmenn varðar sem fá vinnu áfram í hinum nýja Landsbanka gilda þær reglur að nýi bankinn tekur yfir réttindi og skyldur gamla bankans. Ef starfsmaður hefur verið með milljón á mánuði á gamla staðnum þá á að jafna það hjá nýja bankanum að sögn Eiríks.

Um þetta gilda lög um réttarsöðu starfsmanna við aðilaskipti og samkvæmt þeim á nýi bankinn að taka við þeim réttindum sem aðilar höfðu á gamla staðnum.

Það sem hinsvegar orkar tvímælis að mati Eiríks er að í hinum svokölluðu neyðarlögum sem sett voru á mánudaginn segir að lögin um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti eigi ekki við.

„Ég er hinsvegar ekki sannfærður um að það sé hægt að víkja þeim til hliðar með þessum hætti. Þetta eru lágmarkslög sem sett eru til verndar launþegum og eru sett á grundvelli skyldna Íslands að þjóðarréttindum samkvæmt samningi EES," segir Eiríkur sem býst við því að um þetta verði deilt á næstunni.



Eiríkur Elís Þorláksson, héraðsdómslögmaður hjá LEX lögmannsstofu.

 












Tengdar fréttir

Hundruð manna missa vinnu í Landsbankanum

Hundruð manna munu missa vinnuna hjá Landsbankanum, aðallega fólk á verðbréfasviði. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að viðskiptaráðherra hafi sagt á fundi með starfsmönnum Landsbanks í gær að enginn myndi missa vinnuna. Elín Sigfúsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Landsbankans, hefur verið ráðin bankastjóri Nýja Landsbankans hf.

Starfsmenn Landsbanka í London áhyggjufullir

Fullkomin óvissa ríkir um starfsmenn Landsbankans í London er þar vinna á annað hundrað manns. Einn starfsmaður bankans sem Vísir ræddi við í morgun segir að margir starfsmenn séu í mjög vondum málum. Til að mynda fjölskyldufólk sem hefur skuldbundið sig í langtíma leigusamninga og jafnvel húsnæðislán sem er erfitt að losna út úr.

Um 550 starfsmenn Landsbankans missa vinnuna

Um 1000 manns munu starfa hjá Nýja Landsbanka sem tók til starfa í morgun. Allir koma úr röðum núverandi starfsmanna Landsbankans, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá bankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×