Innlent

Eftirlaunafrumvarpið gengur ekki nógu langt

Ögmundur Jónasson þingmaður Vg.
Ögmundur Jónasson þingmaður Vg.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra lagði í kvöld fram frumvarp um breytingu á eftirlaunum forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Lagði Árni til að frumvarpinu yrði vísað til fjárlaganefndar. Kristinn H. Gunnarsson tók til máls sagði strax í kjölfarið og sagðist hafa vorkennt fjármálaráðherra að þurfa að flytja frumvarpið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hann sagði greinilegt að Árni hefði verið að flýta sér eins mikið og hann gæti.

Sagði Kristinn að með frumvarpinu væri verið að flytja þennan hóp í svokallaða A-deild lífeyrissjóðsstarfsmanna ríkissins. Sagði hann svo vera samkvæmt upplýsingum sem hann hefði frá lífeyrissjóðunum. Árni sagði þetta ekki rétt og tók Ögmundur Jónasson þingmaður Vg undir það.

Ögmundur sagðist hinsvegar ekki vilja taka þátt í þessu og fjallaði frekar um þann pólitíska þráð sem einkenni þessa umræðu.

„En hann hefur ákaft verið spunnin og sérstaklega í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Þá hét Samfylkingin kjósendum sínum því að afnema lífeyrislögin eins og það var kallað og voru sett árið 2003. Um það var síðan gerð samþykkt í stjórnarsáttmála en hvað það síðan var sem hékk á spýtunni var alltaf hulið," sagði Ögmundur.

Ögmundur sagði að mánuðum saman hefðu staðið yfir samningaviðræður um þessi mál og þar hafi verið reynt að kalla til fulltrúa allra flokka á þingi þótt staðreyndin væri sú að Ríkisstjórnin hefði komið sér saman um niðurstöðu í málinu og lægi fyrir í þessu frumvarpi sem engan veginn gengi alla leið.

Ögmundur sagði að töfin á þessum loforðum hefði fært þessu fólki svolítinn ávinning því umframréttindi skapi á ári hverju um 23.000 krónur á mánuði, sem sé nokkuð fín launahækkun.

„Með því að bíða fram í júlí verða þetta orðnar tæpar 50.000 krónur á mánuði í eigin vasa."

Ögmundur sagðist hafa margsinnis lýst því yfir að ef frumvarpið gengi ekki alla leið myndi hann ásamt sem flestum standa fyrir breytingartillögum í þá veru.

„Það verður gert þegar frumvarpið kemur til afgreiðslu. Ég minni á að það er annað frumvarp sem liggur fyrir og gengur lengra. Það hefði verið eðlilegra að fá það frumvarp inn í þingsal sem fyrst.

Sagðist Ögmundur hafa sagt að hægt væri að afgreiða þetta mál á skömmum tíma og beitti hann sér fyrir því með því að stytta mál sitt.

Talaði Ögmundur einungis í um átta mínútur sem Siv Friðleifsdóttir sagði síðan að hefði verið vel af sér vikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×