Erlent

Norður-Kórea af lista yfir stuðningsríki hryðjuverka

Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu.

Bandaríkin hafa tekið Norðu-Kóreu af lista sínum yfir þau lönd sem styðja hryðjuverkastarfsemi. Frá þessu greindi talsmaður utanríkisráðuneytisins í dag.

Eftir því sem fram kemur á vef CNN er þetta gert eftir að löndin tvö náðu samkomulagi um ýmis atriði sem snúa að kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu. Þannig munu Norður-Kóreumenn veita aðgang að öllum kjarnorkustöðvum sínum og þá munu þeir hætta að framleiða plútón fyrir kjarnavopn, en slíka framleiðslu hófu þeir á ný á dögunum eftir nokkurt hlé.

Norður-Kórea hefur verið á lista Bandaríkjanna yfir stuðningsríki hryðjuverka frá árinu 1988 og hefur Bush Bandaríkjaforseti kallað landið eitt af öxulveldum hins illa. Þau ríki sem þar eru sæta ýmiss konar þvingunum og refsiaðgerðum, svo sem banni við fjárhagslegri aðstoð og vopnasölu. Fjögur ríki eru enn á lista Bandaríkjamanna: Kúba, Sýrland, Súdan og Íran.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×