Viðskipti innlent

FME gat ekki komið í veg fyrir Icesave vanda

Breki Logason skrifar
Jónas Fr. Jónsson forstjóri FME.
Jónas Fr. Jónsson forstjóri FME.

Fjármálaeftirlitið gat ekki knúið Landsbankann til þess að færa Icesave reikningana úr útibúi þess á Íslandi yfir í dótturfélag í Bretlandi. Engu að síður hafði eftilitið mælst til þess við Landsbankann að svo yrði gert. Þetta kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Vísis varðandi Icesave.

Vísir sendi fyrirspurn sem snéri að ummælum sem Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings lét falla í Markaðnum á Stöð 2 um helgina.

Þar sagði Sigurður m.a að í mars á þessu ári hefði Fjármálaeftirlitinu og viðskiptaráðherra mátt vera ljóst um vanda Icesave í Bretlandi, en þrátt fyrir þá vitneskju hefði ekkert verið gert.

Viðskiptaráðherra hefur sagt í fréttum að hann hafi ekki vitað um vanda Icesave fyrr en í blálokin á ágúst og það hefur Jónas Fr. Jónsson forstjóri FME einnig staðfest.

Í svari FME til Vísis segir einnig að ekki hafi verið talin ástæða til þess að ræða samkomulag sem unnið var að milli Fjármálaeftirlita landanna og snéri að málefnum Icesave við viðskiptaráðherra. Enda hefði málið verið í eðlilegum farvegi milli eftirlitanna tveggja og Landsbankans.

Svar FME má sjá í heild sinni hér að neðan:

Það er rangt sem Sigurður Einarsson sagði að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki átt fyrir skuldum í mars og þess vegna hefði Fjármálaeftirlitið (FME) átt að stöðva Icesave. Af uppgjörum Landsbanka Íslands hf. (Landsbankans) á þessu ári má sjá að eignir voru umfram skuldir. Einnig hefur komið fram að innlán á Icesave reikningana í Bretlandi jukust ekki á árinu 2008.

Í mars 2008 var mjög neikvæð umræða um íslenskt efnahagslíf og íslensku bankana, einkum í Bretlandi. Til þess að bregðast við þeirri áhættu sem þessi neikvæða umræða gat haft í för með sér fyrir innstæðurnar á Icesave gerðu breska Fjármálaeftirlitið og Landsbankinn, með stuðningi FME, samkomulag í maí um meðferð reikninganna, lausafjárstýringu og tilhögun markaðssetningar.

EES-löggjöf gerir ráð fyrir því að íslenskum fjármálafyrirtækjum jafnt sem erlendum sé heimilt að starfrækja útibú eða dótturfélög í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt Evrópulöggjöfinni hafa fyrirtæki frelsi til að velja hvort starfsemi þeirra sé í formi útibús eða dótturfélags. FME hefur ekki lagaleg úrræði til að knýja fjármálafyrirtæki til að færa starfsemi sína úr útibúi yfir í dótturfélag. Engu síður hafði FME frá því snemma á árinu mælst til þess við Landsbankann að Icesave yrði fært í breskt dótturfélag.

Það ferli sem fer í gang þegar ætlunin er að breyta útibúi í dótturfélag er flókið bæði lagalega og fjárhagslega og þurfti samþykki breskra stjórnvalda. Þá þurfti að gæta ákvæða í lánasamningum og að stefna ekki fjármögnun Landsbankans í hættu.

Heimild Landsbankans til móttöku í Bretlandi hefur legið fyrir frá árinu 2005 og tilurð Icesave var almennt þekkt staðreynd sem upplýsingar voru birtar um í uppgjörum og kynningum Landsbankans. Málefni reikninganna og að unnið væri að breytingum félagsins í dótturfélag eða gerð samkomulags við breska Fjármálaeftirlitið um umgjörð reikninganna var ekki rætt við viðskiptaráðherra síðast liðið vor, enda málið í eðlilegum farvegi milli eftirlitanna tveggja og Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×