Skoðun

Djúpt mat á ESB

Darri Gunnarsson skrifar um Evrópumál:

Í leiðara Fréttablaðsins, þriðjudaginn 9. desember, skrifar Þorsteinn Pálson um ESB-umræðuna. Hann vill forðast slag­orðakenningar og vill dýpka umræðuna í breitt og málefnalegt mat á heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Í leiðara sínum bendir Þorsteinn á slagorðakennd andmæli andstæðinga aðildar og að í þeirra huga snúist málið um það hvort gefa eigi útlendingum fiskimiðin. Hann telur veruleikann flóknari og kallar eftir betri rökum sjávarútvegsins.

Fólk í sjávarútvegi hefur verið duglegt að benda á aðstæður í sjávarútvegi ESB og heimfæra þær upp á aðstæður hér á landi. Þorsteinn gerir lítið úr þessu. Slagorð fylgjenda ESB-aðildar virðast einnig fara fram hjá honum. Þorvaldur Gylfason, segir að skerða verði fullveldið til að vernda það. Gylfi Magnússon segir að valið standi á milli ESB og hafta- og einangrunarbúskapar. Þetta eru slagorðin úr Háskóla Íslands. Í stuttum leiðara er fullyrt að fjármálastöðugleika verði ekki náð með íslenskri krónu, einhliða upptaka annars gjaldmiðils sé tæplega fær og Evrópusambandsaðild og samhliða upptaka evru muni því styrkja sjávarútveginn. Djúpt mat höfundar mun að líkindum leiða kosti ESB-aðildar í ljós.

Mat á hagsmunum aðildar Íslands að ESB er flókið. Gallinn er sá að útkoman fer eftir því hver reiknar dæmið. Leiðari Fréttablaðsins er gott dæmi um það. Niðurstaða Þorsteins er ljós. Við eigum að fara í ESB og fá undanþágu frá sjávarútvegsstefnu sambandsins.

Nú vilja margir skoða og meta hagsmuni Íslendinga af Evrópusambandsaðild. Við mat verður reynt að meta aðild eftir peningalegum mælikvörðum. Þannig metum við nú hagsmuni! Í þessu dæmi á að reikna hvort það borgi sig að skerða fullveldi þjóðarinnar.

Þetta reiknisdæmi óttast ég, þetta á ekki að reikna. Aðild Íslands að ESB þýðir að áhrif erlendra embættismanna aukast hér á landi. Áhrif íslensku þjóðarinnar minnka. Þetta snýst um grundvallaratriði. Fullveldi Íslands. Það er skýrt, Evrópusambandið er flókið. Höfum það einfalt. Einfalt fullvalda Ísland.

Höfundur er framkvæmdastjóri InterSeafood.




Skoðun

Sjá meira


×