Erlent

Mugabe frestaði fundi án niðurstöðu

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe.
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe.

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, segir að fjórtán klukkustunda langur fundur hans með stjórnarandstöðunni í gær hafi endað án niðurstöðu.

Hann segir að áfram verði fundað í dag og segist viss um að niðurstaða um stjórnarfar í landinu náist. Thabo Mbeki, forseti Suður-Afríku, hefur verið sáttasemjari í viðræðum Mugabes og Morgans Tsvangirais, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem fóru fram á hóteli í Harare, höfuðborg Zimbabwe.

Til að hægt sé að semja um þjóðstjórn í landinu þarf að nást samkomulag um það hvernig eigi að deila völdunum. Sú hugmynd hefur verið reifuð að Mugabe og Tsvangirai skipti á milli sín forsetaembættinu. Þá þarf jafnframt að semja um það hvernig stýra eigi lögregluliði og her landsins.

Mikil óöld hefur ríkt í Zimbabwe að undanförnu og hafa þúsundir íbúa þar flúið skelfilegt stjórnmála- og efnahagsástandið þar. Margir hafa flúið til grannríkjanna, Suður-Afríku, Zambíu og Botswana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×