Innlent

Jákvæður sandsílaleiðangur

Talsverð aukning var í magni sílis miðað við árin 2006 og 2007 og má rekja hana að langmestu leyti til eins árs sílis af 2007 árgangi ef marka má niðurstöður sansílaleiðangur Hafrannsóknastofnunnar.

Vöxtur í árgangnum virðist einnig hafa verið góður og góð meðallengd seiða í fyrra skilar sér nú í stóru ársgömlu síli, segir í frétt stofnunarinnar.

"Vöxtur á milli ára er breytilegur hjá síli og einnig er mikill breytileiki í lengd eftir aldri innan árs og milli svæða. Hlutfall eins ár síla var mjög lágt árið 2006 þegar mest fékkst af tveggja og þriggja ára síli og árið 2007 voru seiði og þriggja ára og eldra síli í mestu magni.

Árgangur 2007 er mun stærri en árgangarnir 2005 og 2006, sem voru mjög lélegir. Í sumar var aukning á eins ár síli sérstaklega áberandi á svæðinu frá Vestmannaeyjum að Vík, þar sem nær ekkert hefur fengist af síli síðastliðin tvö ár. Eins og annars staðar jókst hlutfall eins árs sílis í aflanum í Breiðafirði, en þegar á heildina er litið fékkst þó minna þar af síli nú en undanfarin tvö ár.

Minna fannst af seiðum frá því í vor en í fyrra. Þau voru svipuð að stærð og árið 2006 en minni en árið 2007. Eins og í fyrra fengust flest þeirra í Breiðafirði. Ekki er þó hægt að segja til um nýliðun þessa árs með neinni vissu fyrr en sést hvernig hún skilar sér sem 1 árs síli á næsta ári."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×