Innlent

Hefur miklar áhyggjur af fjölskyldu sinni í Georgíu

Íslensk kona, sem er frá Georgíu hefur miklar áhyggjur af fjölskyldu sinni þar. Hún segir skelfilegt hvernig allt hefur farið en vonast til að stríðinu ljúki sem fyrst.

Irma Matchauariani hefur búið og starfað hér á landi í ellefu ár en hún er fædd í Georgíu. Faðir hennar býr þar enn og systir hennar ásamt fjölskyldu sinni og einnig fjölmargir vinir hennar. Hún hefur miklar áhyggjur af þeim öllum. Hún er í reglulegu sambandi við þau og segir hljóðið í þeim þungt. Flestir þeirra séu þó í höfuðborginni Tbilis en þangað hafa átökin ekki náð.

Hún segist ekki skilja hvað yfirvöld í Georgíu hafi verið að hugsa þegar þau réðust inn í Suður-Ossetíu á föstudaginn. Irma segir að Rússum og Georgíumönnum eigi að geta samið enda hafi þeir áður verið ein þjóð og margir vina hennar séu Rússar. Hún vonast til að stríðinu ljúki sem fyrst og að samið verði um frið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×