Erlent

Segir stutt í samninga í Zimbabwe

Robert Mugabe, forseti Zimbawe, segir að aðeins eigi eftir að ganga frá smávægilegum hlutum í samningaviðræðum við stjórnarandstöðuna.

Það tókst ekki að leiða málin til lykta á maraþonfundi þeirra Mugabes og Morgans Tsvangirai, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í gær. Með þeim á fundinum var Thabo Mbeki, forseti Suður-Afríku, sem er nokkurs konar sáttasemjari.

Mugabe sagði á fundi með fylgismönnum sínum eftir fundinn að hann hefði verið að því kominn að reiða hnefann. Mbeki hafi hins vegar haldið ró sinni og nuddað fundinum áfram.

Mugabe sagði að að viðræðunum væri ekki lokið. Í svona samningum væru alltaf ásteytingarsteinar. En þeir væru að leysa málin.

Morgan Tsvangirai tjáði sig ekki um fundinn, sagði að hann byggist við að Mbeki sendi frá sér yfirlýsingu um hann.

Ef samningar nást á endanum er líklegt að Mugabe verði áfram forseti, en Tsvangirai forsætisráðherra. Hins vegar greinir menn á um hver yrði valdastaða Mugabes.

Stjórnarandstaðan vill að hann verði aðeins valdalaus þjóðhöfðingi og Tsvangirai stjórni í raun landinu. Á það vilja stuðningsmenn Mugabes hins vegar ekki fallast.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×