Innlent

Ríkið skuldar Impregilo hátt í tvo milljarða

Skuldir íslenska ríkisins við ítalska verktakafyrirtækið Impregilo nálgast tvo milljarða króna. Þar af er hálfur milljarður vegna dráttarvaxta. Skattgreiðendur sitja uppi með tapið segir lögmaður Impregilo.

Hæstiréttur úrskurðaði í fyrra að ríkinu bæri að endurgreiða Impregilo opinber gjöld vegna starfsmanna á vegum erlendra starfsmannaleiga. Það gerði ríkið hins vegar ekki og höfðaði Impregilo mál þar sem krafist er endurgreiðslu upp á 1,2 milljarða króna, auk 300 milljóna í dráttarvexti.

Síðan ríkinu var stefnt hafa dráttarvextirnir hækkað um nærri tvö hundruð milljónir króna og því eru dráttarvextirnir á skuld ríkisins við Impregilo orðnir nærri hálfur milljarður. Þessi upphæð hækkar um milljón á dag.

Frávísunarkröfu ríkisins var hafnað og verður málið tekið fyrir í héraðsdómi í haust. Lögmaður Impregilo, Garðar Valdimarsson, segir það sérkennilegt að ríkið haldi aftur greiðslu þegar Hæstiréttur hafi úrskurðað um málið.

Garðar segir Impregilo hafa tapað umtalsverðum fjárhæðum vegna veikingar krónunnar en fyrst og fremst séu það skattgreiðendur sem sitji uppi með tapið. Hann segir ríkið hugsanlega hafa brotið stjórnsýslulög með því að taka það úr höndum ríkisskattstjóra.

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, vildi ekki tjá sig um málið meðan það er á borði dómstóla.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×