Erlent

Taktu prófið aftur homminn þinn

Óli Tynes skrifar

Ítalska ríkið hefur verið dæmt til þess að greiða samkynhneigðum manni 100 þúsund evrur (12 milljónir kr) í miskabætur vegna mismununar.

Þegar hinn 26 ára gamli Danilo Giuffrida gekkst undir læknisskoðun áður en hann hóf herþjónustu sagði hann læknum að hann væri samkynhneigður.

Læknarnir létu þær upplýsingar ganga áfram til samgönguráðuneytisins.

Þar tilkynntu menn Giuffrida að hann yrði að taka bílpróf sitt á nýjan leik. Ella yrði hann sviptur ökuréttindum vegna "kynferðistruflana" sinna.

Giuffrida tók bílprófið aftur og stóðst það. Samgönguráðuneytið endurnýjaði þá ökuréttindi hans. En aðeins í eitt ár í stað tíu, vegna samkynhneigðar hans.

Þá var Giuffrida nóg boðið og hjólaði í ríkið með aðstoð lögfræðings. Hann er nú tólf milljónum króna ríkar en áður....og með ökuréttindi næstu tíu árin.

Lögfræðingur hans segir að þetta sé í fyrsta skipti sem ríkið hafi verið dæmt fyrir mismunun á grundvelli kynhneigðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×