Erlent

Undarlegt hvarf fjölskyldu bresks auðmanns

Breska lögreglan leitar nú að þriggja manna fjölskyldu auðmanns sem ekkert hefur spurst til síðan á þriðjudag þegar öll hús á landareign þeirra voru brennd. Málið þykir allt lykta af því að brunanum hafi verið ætlað að fela ummerki um að fjölskyldan hafi verið myrt - eða að hún sé á flótta.

Eftirlit er haft með höfnum og flugvöllum til að tryggja að fjölskyldan fari ekki úr landi, ef hún er þá á lífi. Þrír hestar fundust dauðir í rústum hesthússins og tveggja hunda er saknað.

Eigandi þessarar miklu eignar er Christopher nokkur Foster. Hann bjó þarna með konu sinni og fimmtán ára gamalli dóttur. Eignin er talin hafa verið um 350 milljón króna virði - og Foster er forstjóri fyrirtækis sem framleiðir einangrunarvörur til nota í gas- og olíuvinnslu. Í ágúst á síðasta ári var fyrirtækið tekið til gjaldþrotaskipta og reyndist skulda allt að tveimur milljörðum króna.

Þá kom í ljós að Christopher Folster hafði í marga mánuði verið að hirða allt verðmætt út úr fyrirtækinu og flutt á nafn nýs fyrirtækis í sama bransa, í sinni einkaeigu. Foster hafði einnig kært tvo menn fyrir fjárkúgun en þeir voru báðir sýknaðir af öllum kærum í nóvember 2006.

Vinir Fosters hafa lýst honum sem kátum manni og vingjarnlegum en skiptastjórinn í gjaldþrotamálinu var á annarri skoðun. Hann sagði að Foster væri ekki treystandi og skorti almennt viðskiptasiðferði.

Hjónin bárust mikið á í einkalífi sínu; óku Porche, Ferrari og Aston Martin bílum, og létu grafa fyrir stórri tjörn á landareigninni þar sem þau höfðu endur, gæsir og svani.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×