Innlent

Segja sálfræðing vanta fyrir fangelsin

Fangaklefi.
Fangaklefi. MYND/Gunnar V. Andrésson

Vísi hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá Afstöðu, félagi fanga: „Síðasti starfsdagur Þórarins Hjaltasonar, annars sálfræðings Fangelsismálastofnunar ríkisins, er á morgun, 30. apríl. Ekki er enn búið að ráða í stöðu hans. Þórarinn, ásamt öðrum sálfræðingi stofnunarinnar, hefur sinnt öllum föngum landsins, einnig þeim sem eru á skilorði og í samfélagsþjónustu.

Ljóst er að einn starfsmaður getur á engan hátt sinnt öllum þessum fjölda en sálfræði-, geðlækna- og heilbrigðisþjónusta fangelsanna hefur verið mikið í umræðunni, sérstaklega í kringum sjálfsvíg er átti sér stað í fangelsinu á Litla-Hrauni fyrir nokkru. Þjónustan var þá gagnrýnd og kom þá í ljós að dæmi eru um að fangar sem afplána mislanga dóma hafi aldrei hitti sálfræðing eða geðlækni á meðan afplánun þeirra stóð.

Afstaða þakkar Þórarni fyrir samstarfið á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi. Afstaða vonast til þess að Fangelsismálastofnun ráði sem fyrst sálfræðing í hans stað til að koma í veg fyrir þau óþægindi sem fangar geta hlotið af þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×