Viðskipti innlent

Seðlabankinn: Harmagedón 2010

Davíð sýnir hvar hann keypti ölið.
Davíð sýnir hvar hann keypti ölið.

Þegar rýnt er í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans kennir ýmissa grasa. Samkvæmt þessari ársfjórðungslegu opinberunarbók bankans má nánast draga þá ályktun að Ísland verði sviðin jörð árið 2010.

Í Opinberunarbók Jóhannesar (16:1 - 17) segir frá því er englarnir sjö helltu úr hinum sjö skálum reiði guðs yfir jörðina. Vísir birtir hér úttekt sína á hinum sjö skálum Seðlabanka Íslands.

Og hinn fyrsti fór og hellti úr sinni skál á jörðina. Og vond og illkynjuð kaun komu á mennina. Þrjátíu prósenta lækkun íbúðaverðs árið 2010.

Og hinn annar hellti úr sinni skál í hafið, og það varð að blóði eins og blóð úr dauðum manni. Halli hins opinbera verður um 8% af landsframleiðslu árið 2010.

Og hinn þriðji hellti úr sinni skál í fljótin og uppsprettur vatnanna og það varð að blóði. Verðbólga á þriðja ársfjórðungi 2008 verður tæp 11%.

Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina. Og sólinni var gefið vald til að brenna mennina í eldi. Samdráttur vergrar landsframleiðslu verður 2,5% á næsta ári og 1,5% árið 2010.

Og hinn fimmti hellti úr sinni skál yfir hásæti dýrsins. Og ríki þess myrkvaðist, og menn bitu í tungur sínar af kvöl. Einkaneysla verður 13% minni en í fyrra árið 2010.

Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir fljótið mikla, Efrat. Og vatnið í því þornaði upp. Atvinnuleysi verður rúm 4% árið 2010.

Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið og raust mikil kom út úr musterinu, frá hásætinu og sagði: „Það er fram komið." Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, 2,5%, næst á þriðja fjórðungi ársins 2010.

Opinberunarbókinni lýkur á þessum orðum: „Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók."

Hvernig lýkur Peningamálum?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×