Enski boltinn

Kewell sendi opið bréf til stuðningsmanna Leeds

Elvar Geir Magnússon skrifar
Kewell lék með Liverpool áður en hann ákvað að ganga til liðs við Galatasaray.
Kewell lék með Liverpool áður en hann ákvað að ganga til liðs við Galatasaray.

Harry Kewell hefur sent frá sér opið bréf til stuðningsmanna Leeds United þar sem margir þeirra eru honum reiðir fyrir þá ákvörðun að ganga til liðs við Galatasaray í Tyrklandi.

Christopher Loftus og Kevin Speight voru stuðningsmenn Leeds en þeir voru stungnir til bana í kringum leik Leeds gegn Galatasaray í Istanbúl fyrir átta árum.

Kewell var leikmaður Leeds á þeim tíma og lék báða leikina gegn Galatasaray. Hann hefur nú sent frá sér bréf þar sem hann segist hafa sterkar tilfinningar til Leeds og að hann hafi valið númer hjá Galatasaray til að sýna Leeds virðingu sína.

„Ég ber sterkar tilfinningar til Leeds og það sem félagið gerði fyrir mig. Það mun aldrei breytast. Ég samhryggist fjölskyldum og vinum Christopher Loftus og Kevin Speight og mun alltaf gera," segir m.a. í yfirlýsingu Kewell.

„Ég valdi treyju númer 19 hjá Galatasaray því það er númerið sem ég fékk þegar ég vann mér inn sæti í Leeds. Ég er ekki búinn að gleyma því hvar ferill minn hófst," sagði Kewell og tekur það einnig fram að ekki eigi að kenna félaginu Galatasaray um harmleikinn sem átti sér stað fyrir átta árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×