Innlent

Farþegi datt af fjórhjóli í ofsaakstri

Lögreglan var stödd í Hafnarfirði við hraðamælingar fyrir stundu þegar hún mældi fjórhjól á yfir hundrað kílómetra hraða á Strandgötu þar sem er fimmtíu kílómetra hámarkshraði. Á meðan lögreglubíllinn var að snúa við til að hefja eftirför hvarf hjólið inn á göngustíg sem liggur frá Strandgötu.

Lögreglumennirnir héldu eftir göngustígnum og komu fljótlega að manni liggjandi í götunni. Þegar betur var að gáð kom í ljós að þar var kominn farþegi fjórhjólsins en ökumaðurinn hafði ekki haft fyrir því að stöðva og athuga með félaga sinn heldur var hann á bak og burt á hjólinu.

Farþeginn mun hafa slasast nokkuð, þó ekki lífshættulega, og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Lögregla bíður þess nú að ræða við hann til þess að fá upplýsingar um ökumanninn.

Að sögn lögreglu hefur verið þónokkuð um það í Hafnarfirðinum að fjórhjólum sé ekið of hratt í bænum og að ökumenn láti sig síðan hverfa inn á göngustíga þegar lögregla hyggst hafa afskipti af þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×